Aðalfundur 2012

Mánudaginn 23. apríl var aðalfundur Hornfirska Skemmtifélagsins haldinn á Hótel Höfn. Mætingin var nokkuð góð og lögum samkvæmt var farið yfir starf félagsins á síðasta ári, fjármál og framtíðin rædd. Þá var einnig rætt um hvernig fjármunum af sýningum skuli eytt en sem stendur er staða Skemmtifélagsins mjög góð. Þar spila nokkrir þættir saman, hagnaður af sýningum síðasta árs var mikill, kostnaði við lokahóf haustsýningar var stillt í hóf og sú ákvörðun var tekin að halda ekki Norðurljósablús árið 2012 en sú hátíð hefur jafnan verið mjög kostnaðarsöm fyrir félagið.

Í 5. gr laga Hornfirska Skemmtifélagsins segir að öllum hagnaði af rekstri félagsins skuli varið í tækjakaup sem muni nýtast við uppfærslur félagsins. Þessi mál eru í skoðun hjá stjórn félagsins og hugmyndir eru uppi um að félagið muni smá saman fjárfesta í sínum eigin búnaði og verði því ekki öðrum háð á hverju ári hvað varðar tæki og græjur.

Dagskrá fundarins var eftirfarandi:
i. Fundarsetning
ii. Kosning fundarstjórnanda og fundarritara
iii. Skýrsla stjórnar
iv. Skýrsla gjaldkera
v. Kosning stjórnar og skoðunarmanna reikninga
vi. Lagabreytingar
vii. Málefni næsta árs
– 15 ára útgáfuafmæli geisladisksins Kæra Höfn – Skemmtun á Humarhátíð
– Haustsýning Skemmtifélagsins – Tillögur að þema
viii. Önnur mál
– Upptökur sýningar 2010
– Upptökur sýningar 2011
– Myndabanki Skemmtifélagsins – Ný heimasíða

Skýrslu stjórnar má nálgast HÉR og fundargerð aðalfundarins HÉR.