kentarBlúsdrottningin Andrea Gylfadóttir kemur fram ásamt blúsmönnum sínum á Norðurljósablús fyrstu helgina í mars. Andreu þarf ekki að kynna enda er þetta ein þekktasta söngkona landsins.

Blúsmennirnir eru heldur engir aukvisar, Guðmundur Pétursson á gítar, Haraldur Þorsteinsson á bassa, Einar Rúnarsson á Hammond og Jóhann Hjörleifsson á trommur.

Þá mun gítarhetjan Björgvin Gíslason leika á blúshátíðinni og gaman verður að sjá þennan mikla virtúós taka gamla Gibsoninn til kostanna. Björgvin mun leika með hljómsveitinni Kentár á hátíðinni en sveitin fagnar 25 ára afmæli á þessu ári. Einnig verða Park Project, Mood, Grasrætur, Vax, Mæðusveitin Sigurbjörn og sænsku sprelligosarnir í Jump 4 Joy á hátíðinni og blúsdjammið verður á sínum stað í Nýheimum.

Á myndinni eru Hlöðver Ellertsson bassaleikari Kentára og Björgvin Gíslason í góðum gír.