Á laugardagskvöld frumsýnir Hornfirska skemmtifélagið söngleikinn Eitís eftir Felix Bergsson í leikstjórn Kristínar G. Gestsdóttir á Hótel Höfn. Eitís er sannkölluð sápuópera í anda Dallas og inn í hana fléttast nokkur af þekktustu popplögum níunda áratugarins.
Meðal annars má heyra Wake me up before you go go og Material Girl en einnig gamla rokkara á borð við Final countdown og Money for nothing. Íslensk tónlist hljómar líka í söngleiknum, Pamela í Dallas, Útihátíð og Draumaprinsinn svo dæmi séu nefnd. Tónlistarstjóri er Heiðar Sigurðsson og koma sjö söngvarar og leikarar koma fram í sýningunni auk fimm manna hljómsveitar og þriggja bakraddasöngvara. Alls koma 23 að sýningunni.
Ein stór fjölskylda
Í sýningunni koma fram söngvarar, leikarar og tónlistarmenn sem taka þátt í uppfærslum skemmtifélagsins af áhuga og fæstir hafa nokkra menntun í listum að baki. Það er sérstakt við þessa sýningu að í henni taka þátt feðgar, mæðgur, systur og feðgin svo aldurshópurinn er dreifður en allir vinna saman sem ein fjölskylda.
Helgarpakkar til Hornafjarðar
Í tengslum við sýningarnar verður boðið upp á pakka sem henta vel starfsmannafélögum og fleiri hópum sem vilja leggja land undir fót og gera sér dagamun. Í pakkanum er gisting á Hótel Höfn, kvöldverður, tónlistardagskrá og dansleikur. Að auki er ýmis önnur afþreying í boði á staðnum og er hægt að sérsníða afþreyingarpakka ef óskað er.
Sex ára saga
Þetta er sjötta verkefni Hornfirska skemmtifélagsins sem sett er upp á Hótel Höfn. Þar fyrir utan er alþjóðlega blúshátíðin Norðurljósablús sem haldin er í byrjun mars ár hvert á öllum veitingahúsum Hafnar í Hornafirði. Hornfirska skemmtifélagið hefur einnig tekið að sér ýmis önnur verkefni, svo sem umsjón með ýmusm skemmtunum og haldið námskeið í viðburðarstjórnun.
Skapandi iðnaður á Hornafirði
Hornfirska Skemmtifélagið er einn af stofnendum Ríkis Vatnajökuls ehf, Ferðaþjónustuklasa Hornafjarðar. Eitt af markmiðum skemmtifélagsins er að laða ferðafólk á staðinn utan hefðbundins ferðamannatíma og auka veltu í þeirri grein en aðalmarkmið félagsins er einnig að gefa söngvurum og hljóðfæraleikurum á staðnum tækifæri til að þroska sig og bæta með því að koma fram í krefjandi sýningum.
Á myndinni eru frá vinstri:
Kristón Elvarsson, Ragnheiður Sigjónsdóttir, Maríanna Jónsdóttir, Björn Imsland. Þórður Ingvarsson, Helga Vilborg Sigjónsdóttir og Nanna Halldóra Imsland. Fremst eru bakraddasöngvararnir Elvar Bragi Kristjónsson, Svafa Mjöll Jónasar og Sólveig Morávek.