Blúshátíðin Norðurljósablús tókst mjög vel en hátíðin fór fram um síðustu helgi á Höfn í Hornafirði. 25 tónlistarmenn í 7 hljómsveitum komu fram á 10 blústónleikum um helgina á Höfn og var blúsað á fjórum stöðum í bænum. Þeir sem komu fram um helgina voru Blúskompaníið, KK, Mood, Kentár, Vax og
Síðasti sjens. Einnig stjórnuðu Sæmi Harðar og félagar blúsdjammi í Nýheimum á föstudag og laugardag.

Aðal gestirnir á Norðurljósablús 2006 var sænska blúshljómsveitin Emil & the Ecstatics. Sveitin lék á tvennum tónleikum. Emil Arvidsson, söngvari og gítarleikari sveitarinnar var himinlifandi eftir hátíðina sem honum fannst takast mjög vel. „Ég hef spilað á 10-20 blúshátíðum á Norðurlöndunum síðustu ár og margar af þessum hátíðum hafa verið haldnar ár eftir ár en samt er alltaf eitthvað sem ekki gengur. Hér á Höfn var skipulagningin frábær og mjög vel hugsað um að allt væri sem best. Það er ótrúlegt að verið sé að halda þessa hátíð í fyrsta sinn“ segir Emil Arvidsson.

Það má segja að blúsað hafi verið fyrir alla aldurshópa á Höfn um helgina, því KK heimsótti alla grunnskóla staðarins á föstudaginn og á laugadaginn fór hann ásamt Magnúsi Eisríkssyni og Þorleifi Guðjónssyni á dvalarheimilið og tóku lagið fyrir gamla fólkið. Hornfirska skemmtifélagið stendur fyrir Norðurljósablús og er þetta fimmta verkefni félagsins.