lg2010Nú fer Norðurljósablúshátíð okkar Hornfirðinga að bresta á en hún hefst næstkomandi fimmtudag og stendur fram á sunnudag. Hátíðin er sú fimmta í röðinni en í ár verður í annað sinn frítt  inn á alla viðburði hátíðarinnar.

Þetta árið munu heilar tólf hljómsveitir sjá um að skemmta bæjarbúum og koma þær allstaðar af landinu. Þessar hljómsveitir eru Johnnyand the rest, Tommi – einstaklingshljómsveit, Mogadon, Blússveit Þollýar, Blúsvíkingarnir, Kærleiksbirnirnir,  Hulda Rós og Rökkurbandið, Mæðusveitin Sigurbjörn, Band #228, the Cha cha chas, MIRI og VAX piltarnir, en þeir ættu nú að vera Hornfirðingum vel kunnugir. Skemmtunin hefst á fimmtudagskvöldi á Hótel Höfn. Á föstudags- og laugardagskvöld munu tónleikarnir dreifast á milli Hótelsins, Kaffihornsins og Víkurinnar. 

 

Í hádeginu á föstudag verður boðið uppá blússtemningu í Nýheimum og á laugardag munu tónlistarmenn taka lagið í sundlauginni milli kl. 14 og 15. Þá verður hið geysivinsæla Blúsdjamm að sjálfsögðu á sínum stað í Nýheimum á laugardeginum milli kl. 16 og 18 en þar gefst gestum og gangandi kostur á að láta ljós sitt skína og taka nokkur lög ásamt því að gæða sér á kræsingum frá honum Gauta.

Þetta árið var ákveðið að hressa upp á einkennismerki hátíðarinnar og sá hann Daníel Imsland um það. Nú þegar er hafin sala á bolum merktum hátíðinni í Nettó og eru allir hvattir til þess að verða sér út um einn slíkan áður en þeir seljast upp.

Eins og hin fyrri ár þá er um samstarf milli Hótel Hafnar, Kaffihornsins, Víkurinnar og Skemmtifélagsins að ræða ásamt því að fleiri utanaðkomandi aðilar styrkja hátíðina á ýmsan hátt. Má þar nefna Sveitarfélagið Hornafjörð, Menningarráð Austurlands, Flugfélagið Erni, Nettó, Dimms design og fleiri.

Vonumst við til þess að sem flestir sjái sér fært að mæta og njóta hinnar frábæru tónlistar ásamt því að skemmta sér í góðra vina hópi.

Dagskrá hátíðarinnar má nálgast hér.