Lg_norurljsSenn líður að Norðurljósablúshátíðinni hér á Höfn og verður það í sjötta skiptið sem sú hátíð er haldin. Eins og ávallt heldur Hornfirska Skemmtifélagið um skipulagninguna og verður hátíðin haldin fyrstu helgina í mars (4. – 6. mars 2011) en sú helgi hefur fest sig í sessi sem Blúshátíðarhelgin á Hornafirði. Að þessu sinni verður lögð megináhersla á að fá hornfirskar hljómsveitir til að spila á hátíðinni, enda er þar af nógu að taka.

Frá upphafi hefur Hornfirska Skemmtifélagið verið styrkt af Menningarsamningum Austurlands þegar kemur að Norðurljósablús og hefur það ásamt stuðningi frá Sveitarfélaginu okkar góða verið helsti bakhjarl hátíðarinnar. Þetta árið eru menningarsamningar á landinu hinsvegar í uppnámi þar sem verulega dróst að staðfesta hina nýju samninga. Auk þess munum við Hornfirðingar flytjast frá Menningarsamningi Austurlands til suðurs. Nú hefur verið auglýst eftir umsóknum til styrkja frá Menningarsamningum en þar sem þeim verður ekki úthlutað fyrr en í apríl á þessu ári er ljóst að þeir munu ekki nýtast Norðurljósablús 2011. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að erfiðlega hefur gengið að fjármagna hátíðina þetta árið. Fyrir jólin var því sú ákvörðun tekin í stjórn Skemmtifélagsins að aflýsa Norðurljósablús þetta árið. Til að gera langa sögu stutta þá var ekkert okkar í Skemmtifélaginu tilbúið til að standa við þá ákvörðun þegar á hólminn var komið.

Þess vegna var strax í byrjun janúar boðið til fundar um hátíðarmál í sveitarfélaginu þar sem rætt var um hvort taka mætti á þessum málum heildrænt og tryggja fjármögnun á einhvern hátt þannig að sú hlið yrði ekki höfuðverkur á hverju ári. Þá væri hægt að þróa hátíðirnar áfram og hafa skýra framtíðarsýn. Að þessari vinnu koma hagsmunaaðilar úr ýmsum áttum ásamt Sveitarfélaginu. Vinnan er nú í fullum gangi en ljóst er að henni verður ekki lokið fyrir blúshátíðarhelgina miklu í mars 2011.

Til þess að Norðurljósablús leggi ekki upp laupana í ár tók okkar kæra sveitarfélag þá ákvörðun í lok janúar að styrkja Hornfirska Skemmtifélagið og mun sá styrkur koma til með að nýtast vel við markaðssetningu og utanumhald hátíðarinnar. Þetta gerði það að verkum að stjórn Skemmtifélagsins bretti upp ermarnar með bros á vör og hóf að skipuleggja sjöttu Norðurljósablúshátíðina á Hornafirði.

Þrátt fyrir velþeginn styrk frá Sveitarfélaginu er ljóst að ekki verður hægt að fjármagna ferðakostnað hljómsveita frá öðrum svæðum landsins eins og tíðkast hefur á fyrri hátíðum. Því beinum við augum okkar að hljómsveitum frá Hornafirði, en eins og við vitum öll eru Hornfirðingar hæfileikaríkir með eindæmum og því verður dagskrá hátíðarinnar alveg jafn skemmtileg og áður. Þess má til gamans geta að tónlistarmenn allstaðar af landinu hafa lagst yfir ættfræðibækur sínar til að finna tengsl við fjörðinn okkar fagra og geta þannig fengið að spila á Norðurljósablús 2011. Tökum við þeim að sjálfsögðu fagnandi.

Hornfirska Skemmtifélagið mun eiga í nánu samstarfi við veitingahús bæjarins vegna hátíðarinnar og eins og oft áður mun dagskráin fara fram á Hótel Höfn, Kaffihorninu og Víkinni. Dagskrá hátíðarinnar er í vinnslu og mun líta dagsins ljós von bráðar.

Við vonum að þið takið öll frá fyrstu helgina í mars og skemmtið ykkur með okkur.