Norðurljósablús – rós í hnappagatið

Á fimmtudagskvöldinu var búið að kveikja í mannskapnum. Blúsáhugamenn tilbúnir í tvö kvöld í viðbót og djamm á daginn í Nýheimum. Á föstudagskvöld lék Blúskompaní Pálma Gunnars og Magga Eiríks á Víkinni. Þeir eru alltaf flottir og í fínu sambandi við blúsinn. Áheyrendur voru með á nótunum og létu vel í sér heyra eftir hvert lag. Sem sagt fínt stuð og allir í góðum gír. Tríóið Vax tók við af þeim. Reyndar fækkaði verulega í hópi áheyrenda, flestir héldu á Kaffihornið til að hlýða á Mood og KK og á Hótelið þar sem Kentár lék. Sat sjálfur á Víkinni og missti því alveg af Kentár. Vildi gefa ungu mönnunum séns og sá ekki eftir því. Þetta eru efnilegir strákar sem gerðu margt vel og skemmtum við sem eftir sátum okkur prýðilega.

Á laugardagskvöld léku Emil & the Ecstatics á Hótelinu. Var búinn að heyra í þeim í Nýheimum og átti því von á fínum tónleikum. Þeir stóðu svo sannarlega fyrir sínu. Hrifu áheyrendur með sér í blúsveislu sem seint mun líða úr minni. Það er mikil lukka að Siggi og Heiðar skuli hafa, af tilviljun hef ég heyrt, rekist inn á skemmtistað í Stokkhólmi, heillast af flutningi þeirra og tekið af þeim loforð um að koma til Hafnar. Svona á að fara að því að flytja inn tónlistarmenn. Mood ásamt KK tók við af Emil og félögum. Ekki öfundsvert hlutverk en þeir voru tilbúnir í slaginn. Góð keyrsla var á þeim allan tímann og undirtektir góðar. Síðasti séns tók þá við og hélt uppi stuðinu eitthvað fram eftir. Lét mig þó hverfa fljótlega enda búinn að fá góðan skammt af blúsnum. Þar með lauk þessari veislu hjá mér og minni.

Ekki hafa allir verið taldir upp sem fram komu á hátíðinni. Má þar nefna Sæma Harðar, Ragga Meysa, Heiðar, Garðar Harðar, Þorstein, Eymund, Þóri, Jenna Einars o. fl sem lögðu sitt af mörkunum til að gera þessa hátíð ógleymanlega.

Hornfirska skemmtifélaginu færi ég mínar bestu þakkir fyrir þetta frábæra framtak. Allt skipulag var til fyrirmyndar, ekki slegið feilhögg alla helgina og tímasetningar stóðust prýðilega. Þá var ánægjulegt að sjá þessa góðu aðsókn. Það er hægt að bjóða til svona veislu utan höfuðborgarsvæðisins ef vilji og áræði eru til staðar. Vonandi er þetta upphafið að frekari afrekum á þessu sviði. Blúsinn á heima á stað eins og Höfn.

Stefán Ólafsson