Sænska hljómsveitin Emil & the Ecstatics verður aðalgestur blúshátíðarinnar Norðurljósablús sem haldin verður á Hornafirði 2.-4. mars næstkomandi. Auk sænsku blúsaranna munu markir af helstu blústónlistarmenn landsins koma fram á hátíðinni. Þar skal fyrst nefna Blúskompaníð undir forystu Magnúsar Eiríkssonar. Einnig munu hljómsveitirnar Mood,Kentár og Vax koma fram á hátíðinni. Síðast en ekki síst mun hljómsveitin “Síðasti sjens” spila á hátíðinni en henni eru meðal annarra Jens Einarsson og Þórir Ólafsson. KK mun opna hátíðina með tónleikum á Kaffihorninu á  fimmtudagskvöldinu. Dagskrá hátíðarinnar er í mótun en hún verður mjög metnaðarfull og blúsinn verður allsráðandi á Höfn í Hornafirði fyrstu helgina í mars 2006

Liðsmenn Emil & the Ecstatics eru kornungir en tónlist þeirra á djúpar rætur og blúsáhugamenn þekkja áhrif frá BB King og fleiri kunnum blúshetjum. Emil Arvidsson söngvari og gítarleikari hefur vakið athygli fyrir hráan og einlægan söng og gítarleik. Að baki hans er firnaþétt sveit með Johan Bendrik Hammondleikara fremstan í flokki. Sveitina skipa einnig Mats Hammarlöf bassaleikari og Tom Steffensen trommuleikari.

Stefnt er að því að Norðurljósablús verði árviss viðburður og áhersla verður lögð á að fá norræna blústónlistarmenn til að leika á hátíðinni.