nordurljosablus2007_logoBlúshátíðin Norðurljósablús 2007 verður haldin á Höfn í Hornafirði dagana 1. – 4. mars.  Hátíðin var haldin í fyrsta skipti fyrir ári síðan og þótti takast svo vel að ákveðið var að gera hana að árlegum viðburði.  Það er Hornfirska skemmtifélagið sem stendur að hátíðinni ásamt ýmsum samstarfsaðilum s.s. Víkinni, Kaffi Horninu, Vatnajökull Travel, Sveitarfélaginu Hornafirði, Flugfélaginu Erni o.fl.

Í ár koma margir helstu blústónlistarmenn Íslands fram á hátíðinni og má þar m.a. nefna Björgvin Gíslason, sem kemur fram ásamt hljómsveitinni Kentár, Pálma Gunnarsson og Gunnlaug Briem ásamt hljómsveitinni Park Project, Bergþór Smára og hljómsveitina Mood að ógleymdri Andreu Gylfadóttur sem mætir með blúsmenn sína.  Aðalgestir hátíðarinnar eru svo snillingarnir í sænsku hljómsveitinni Jump 4 Joy en þetta er í fyrsta skipti sem þeir leika hér á landi.

Blúsdjammið verður á sínum stað en það fer fram í Sindrabæ bæði föstudag og laugardag.  Þar geta allir komið og tekið þátt í stórkostlegri skemmtum jafnt fyrir tónlistarmenn sem áhorfendur.  Enginn aðgangseyrir er að blúsdjamminu.