Gagnleg rýning

Það byrjaði þannig að ég sat heim að hlusta á midi útgáfu af laginu Golden Brown, sem ég fann á netinu og var að hugsa: “Þetta er bara skemmtilega púkó”. Þegar að síminn hringdi. Það var Sigurður Mar að biðja mig um að koma á sýninguna Rokk í 50 ár og skrifa um hana. “ Jú það væri gaman” Sagði ég án þess að hugsa.  Það var ekki fyrr en ég sagði konunni minni frá því, að ég hugsaði með mér: “Ó,sjitt! Hvað ef mér finnst þetta hræðilegt? Hvað á ég þá að skrifa ? Ég fæ það ekki af mér að segja öllum að þetta sé frábært ef það er það ekki, og ekki ætla ég að fara að hrauna yfir þetta í svona litlu samfélagi, ég verð drepinn.”

Þannig að ég ákvað að gera eitthvað sem ég hef aldrei séð neinn íslenskan gagnrýnanda gera; henda út stimplum, vera jákvæður, uppbyggilegur og ef ég þarf að setja út á eitthvað, rökstyðja og útskýra, ekki bara segja að það sé lélegt eða leiðinlegt.

Og nú kæri lesandi þegar ég hef undirbúið þig undir það versta þá verð ég að segja að þessir tónleikar voru bara nokkuð góð skemmtun.  Auðvitað voru nokkur atriði ekki “Pro” enda engin ástæða til að vænta þess í áhugamannasýningu.

Tónleikarnir byrjuðu vel, af miklum krafti og öryggi, en þegar leið á seinni part tónleikanna var eins og söngvararnir yrðu óöruggir og lögin hálf losaraleg. Ég fékk það sterklega á tilfinninguna að þau lög hefðu ekki verið æfð nægilega vel. Þrátt fyrir smá lægð náðist að kýla upp kraftinn aftur, síðustu fjögur löginn voru mjög vel heppnuð og stóðu áheyrendur sáttir upp frá borðum sínum.

Hljómsveitin skilaði sínu einstaklega vel. Þó var í einu lagi spilað á falskan gítar en það kemur svo sem fyrir á bestu bæjum. Söngvarar sem stóðu sig sérstaklega vel voru , Heiðar Sigurðsson sem kom fram og söng eins og hann hafði gert lítið annað síðustu tuttugu árin. Kristján Hauksson söng af krafti og hann hélt ekki aftur af sér í sviðframkomunni. Nanna Halldóra Imsland kom fram af einlægni og er með rödd sem gæti þess vegna verið í atvinnusýningu. Hún kom ánægjulega á óvart þegar hún kippti upp munhörpu og spilaði í laginu Hand in my pocket.  Einnig var leikmyndin skemmtilega einföld og góð.

Það sem var ekki alveg að gera sig var hljóðblöndunin. Stundum var of lágt stillt í söngnum þannig að hann heyrðist illa og í lögunum Space oddity og No Woman, no cry, var skrúfað svo mikið niður í bassanum að hann heyrðist bara ekki neitt.

Sumir söngvaranna voru ekki alveg með tóneyrað rétt stillt  þetta kvöld. Það getur hafa verið tilfallandi. Það er ekkert grín að koma fram og syngja, hvað þá á sjálfu frumsýningar kvöldinu og stundum segir stressið til sín. Á skalanum, Verst í heimi til Best í heimi, gef ég þessum tónleikum einkunnina: Mjög fínt.

Siggi Palli