Veisla fyrir rokkara á Hótel Höfn
Sýningin Rokk í 50 ár verður frumsýnd á Hótel Höfn 15. október nk. Andrea Jónsdóttir, dagskrárgerðarmaður á Rás 2 hefur gengið til liðs við Skemmtifélagið og hefur hún umsjón með lagavali. Andrea er sem kunnugt er einn helsti rokkfræðingur landsins og mun hafa hönd í bagga með Hornfirskum skemmtikröftum.
Í sýningunni Rokk í 50 ár verður farið í gegn um rokksöguna og þau lög eða flytjendur teknir fyrir sem skiptu sköpum fyrir þróun rokksins. Hornfirskir skemmtikraftar bregða sér í gerfi jafn ólíkra listamanna eins og Elvis, Ninu Hagen, Jimi Hendrix, Kate Bush, Bob Dylan og Janis Joplin. Bítlarnir, Nirvana, Led Zeppelin og Queen birtast á nýjan leik á Hótel Höfn og því ætti engum að leiðast á sýningu hjá Hornfirska skemmtifélaginu

Helgarpakkar til Hornafjarðar
Í tengslum við sýningarnar verður boðið upp á pakka sem henta vel starfsmannafélögum og fleiri hópum sem vilja leggja land undir fót og gera sér dagamun. Í pakkanum verður gisting á Hótel Höfn, kvöldverður, rokksýning og dansleikur. Að auki verður ýmis önnur afþreying í boði á staðnum. Samstarfsaðilar Hornfirska skemmtifélagsins eru Hótel Höfn, Gudis ehf, Frumkvöðlasetur Austurlands og ferðaþjónustuaðilar í Austur-Skaftafellssýslu. Menningarráð Austurlands styrkti Skemmtifélagið myndarlega í síðustu úthlutun sinni.