Svartar sálirHljómsveitin Svartar sálir sem stofnuð var árið 1968 af þeim Vigfúsi Svavarssyni, Gunnlaugi Sigurðssyni, Jóni Guðmundssyni, Páli Emil Beck og Emil Þorsteinssyni hefur boðað komu sína á Norðurljósablús 2011 á Höfn. Sveitin kom saman á síðasta ári í tilefni Humarhátíðar og sýndi eftirminnilega takta á aðalsviði hátíðarinnar. Emil Þorsteinsson sem býr í Danmörku átti því miður ekki heimangengt þá og ekki heldur nú. Í stað hans gengu til liðs við hljómsveitina söngkonurnar Þórdís og Sigríður Sif Sævarsdætur sem eru Hornfirðingum að góðu kunnar fyrir söng gegnum árin. Þær verða einnig með sveitinni nú og hefur það gert hljómsveitinni kleift að hækka allar tóntegundir um a.m.k. þrjá heiltóna. Hljómsveitin mun spila á Hótel Höfn laugardagskvöldið 5. mars. Æfingar hafa staðið um nokkurt skeið og samanstendur lagalistinn af blúsum og þekktum standördum ýmiss konar. Það er ekki loku fyrir það skotið að sveitin detti í rokkgírinn „ef hún sé í stuði“. Mikil tilhlökkun er innan hljómsveitarinnar og vonast Svartar sálir eftir að sjá sem flesta.